Má leigusali krefja leigutaka um greiðslu í hússjóð?

Hvernig skal semja um greiðslur í hússjóð
Image

Í auglýsingum um leiguhúsnæði kemur oft fram að leigutaki skuli auk húsaleigu greiða hin ýmsu gjöld, svo sem hita og rafmagn, internet og fleira. Koma þessi gjöld til viðbótar við hina eiginlegu húsaleigu.

Stundum sést einnig krafa um að leigutaki greiði í hússjóð, þrátt fyrir að leigusala beri að greiða þau gjöld.

Í 23. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 í kafla sem fjallar um skiptingu rekstrarkostnaðar kemur fram að leigusali skuli greiða sameiginlegan kostnað sé leiguíbúðin í fjölbýlishúsi:

“Þegar íbúðarhúsnæði er í fjöleignarhúsi skal leigusali greiða sameiginlegan kostnað skv. 43. gr. laga um fjöleignarhús, svo sem framlag til sameiginlegs reksturs og viðhalds sameignar, þar á meðal vegna lyftubúnaðar, hitunar, lýsingar og vatnsnotkunar í sameign, svo og kostnað vegna endurbóta á lóð eða húseign.”

Leigutaka er hins vegar skylt að greiða vatns-, rafmagns- og hitunarkostnað í hinu leigða húsnæði og er það á ábyrgð hans að tilkynna viðeigandi veitustofnunum að hann sé nýr notandi skv. 23. gr. a. laganna.

Hyggist leigusali krefja leigutaka um greiðslu í hússjóð þarf slíkt að koma fram í húsaleigusamningnum með beinum hætti en samningsaðilum er heimilt að semja um að skipta rekstrarkostnaði með öðrum hætti en lögin kveða á um. Sé ekkert fjallað um aðra skiptingu en þá sem fram kemur í lögunum, þá gilda lögin.

Mikilvægt er fyrir leigutaka að hafa í huga að leigusali getur krafið leigutaka um greiðslu vatns-, rafmagns- og hitunarkostnað eftir á gleymi leigutaki að tilkynna um breyttan greiðanda. Til að forðast háa bakreikninga frá leigusala er því nauðsynlegt að ganga frá þessu strax í upphafi.

Hafi leigutaki greitt í hússjóð á leigutímanum án þess að það hafi sérstaklega verið tekið fram í leigusamningnum að hann skyldi gera svo, þá gæti leigutaki átt rétt á endurgreiðslu eða lækkun leigu næsta mánaðar sem útlögðum kostnaði næmi.

Sendu okkur línu á netfangið samband@leiguskjol.is teljir þú að þú hafir innt af hendi óréttmætar greiðslur eða eigir mögulega endurkröfu útlagsð kostnaðar, hvort sem þú ert leigutaki eða leigusali.


Svaraði þessi grein því sem þú varst að velta fyrir þér?
  • Dagsetning
    13.07.2018