Ágreiningur um tryggingafé og endurgreiðslu

Í hverri viku kemur upp ágreiningur milli leigutaka og leigusala um greiðslu tryggingafjár en oft eru deilumálin borin upp á spjallsvæðum á netinu, svo sem á leigusíðum á samfélagsmiðlum.

Oftar en ekki gætir misskilings beggja aðila á þeim lögum sem í gildi eru og ætlað er að draga ramma í kringum þessi mál. Lögin eru hins vegar afar skýr hvað þetta varðar og verður lýst hér að neðan.

Fjöldi dæma er um að leigusali haldi eftir tryggingafé sem lagt hefur verið inn á reikning hans með ólögmætum hætti. Ástæður þess geta verið margvíslegar en yfirleitt eru leigutaki og leigusali ósammála um mat á fjárhæð tiltekins tjóns, svo sem ef leigusali telur þrifum við skil húsnæðisins ábótavant, að húsgögn séu skemmd, parket sé rispað eða mála þurfi veggi svo eitthvað sé nefnt.

Í húsaleigulögum stendur skýrt:

“Leigusali má ekki ráðstafa fénu eða taka af því án samþykkis leigjanda nema fyrir liggi endanleg niðurstaða um bótaskyldu leigjanda.”

Ef leigusali neitar að endurgreiða tryggingarféð eða ef leigutaki telur að hann haldi eftir of hárri fjárhæð, þá er lausnin sú að skjóta málinu til kærunefndar húsamála.

Sú aðferð sem leigusali skal beita við að sækja eða halda eftir tryggingafé er mjög einföld:

  1. Leigusali skal tilkynna leigutaka skriflega innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins að hann ætli að taka af tryggingafénu.
  2. Leigutaki skal tilkynna leigusala skriflega innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar hvort hann samþykkir upphæðina sem leigusali hyggst taka.
  3. Hafni leigutaki kröfunni skal leigusali vísa ágreiningnum um bótafjárhæð til kærunefndar húsamála eða höfða dómsmál innan fjögurra vikna frá því leigutaki hafnaði kröfunni.

Mikilvægt er fyrir báða aðila að fylgja lögunum og þá sér í lagi leigutaka því svari hann ekki innan fjögurra vikna er krafan álitin samþykkt og ekki hægt að ná tryggingafénu til baka. Leigusali skal sérstaklega horfa til þess að gera bótakröfuna innan fjögurra vikna því sé það ekki gert getur bótaréttur fallið niður.

Einfaldasta leiðin til að forðast tilvik sem þessi er að fá þriðja aðila til að geyma tryggingafé, svo sem ábyrgðaþjónstu, sem gætir þess að húsaleigulögum sé fylgt í hvívetna við útgreiðslu tryggingafjár.

Hægt er að sækja um vörslu tryggingafjár á formi reiðufjár hjá Leiguskjóli en sú þjónusta er leigutaka og leigusala að kostnaðarlausu.


Svaraði þessi grein því sem þú varst að velta fyrir þér?
  • Dagsetning
    14.07.2018